Starf sérgreinastjóra í leikskólanum Arnarbergi í Hafnarfirði Ég heiti Bára Fjóla Friðfinnsdóttir og er sérgreinastjóri við leikskólann Arnarberg í Hafnarfirði. Ég lauk leikskólaprófi frá Fósturskóla Ísland árið 1979 og framhaldsnámi í Skapandi starfi árið 1993 frá sama skóla. Leikskólinn Arnarberg er forystuskóli í læsishvetjandi umhverfi. Þar hef ég starfað síðastliðin sjö ár og séð eingöngu um skapandi starf. Starf mitt er í Listastofu leikskólans. Þangað koma hópar samkvæmt stundaskrá og eru mis lengi í senn, fer eftir aldri barnanna. Verkefnin eru mismunandi og efniviðurinn alltaf opinn, málning, litir, lím, verðlaust efni og allt sem til fellur. Sköpun er mikilvæg í öllum þáttum leikskólanáms og ætti að grípa hvert einasta tækifæri sem bíðst til að efla hana, hvar og hvenær sem er. Í þessari grein ætla ég að gefa ykkur örlitla innsýn í starfið í leikskólanum á haustin þegar megin þemað er HAUSTIÐ. Náttúruskoðun Í október fór ég út með einn hópinn og við tíndum lauf sem ekki voru fallin af trjánum. Laufin voru ennþá græn, einstaka laufblað var að byrja að breytast en við sáum æðarnar á blöðunum mjög vel. Þarna var upplagt að staldra við og að lesa í laufin til að sjá hvað haustið væri komið langt. Þetta vakti m.a. upp spurningar: Hvað varð til þess að gróðurinn fölnaði á haustin? Hvað verður um laufblöðin sem falla til jarðar? Að lokum fórum við inn og settum nokkur blöð í blekbyttu til að athuga hvort æðarnar kæmu betur fram. Hugmyndir Í einum tímanum athuguðum við lögun laufanna, laufblöðin voru ekki öll eins. Ég spurði: “Getið þið séð önnur form í blöðunum sem líkist einhverju sem þið þekkið?” Það stóð ekki á svari; þau sáu blóm, fiska, ýmiskonar dýr og að sjálfsögðu geimverur. Nú hófst vinnan við að líma saman og hanna eftir hugmyndum þeirra. Hugmyndir vakna við verklega vinnu Eftir því sem unnið var lengur með sama efniviðin komu sífellt upp fleiri hugmyndir. Elstu börnin voru búin að gera skálar úr gifsbindum sem þau máluðu í öllum regnbogans litum. Nokkur vildu líma lauf á skálarnar og skreyta þær meira. Þau sóttu nokkur laufblöð út í garð og límdu ný tínd blöðin á skálarnar og lökkuðu yfir. Skálarnar voru glæsilegar. Hópímynd yngri barnanna Þema mánaðarins fyrir yngstu barnahópana var “Ég og hópurinn minn”. Til að efla ímyndina gerðum við sameiginlegt tré á maskínupappír. Börnin lögðust á pappírinn og ég strikaði hvert og eitt ofan í sama stofninn þannig að hendurnar mynduðu margar greinar búkurinn og fæturnir mynduðu stofn trésins. Nú átti hvert barn tvær greinar í trénu og allir áttu stofninn saman. Við kölluðum tréð okkar Barnatré. Þá var að líma og skreyta tréð með laufblöðum. Stolt börn teyma nú foreldra sína að trénu til að sýna þeim hvaða handleggi (greinar) þau eiga og hvaða handleggi (greinar) félagarnir eiga. Samlíking Einn hópur fékk það verkefni að bera saman tré og líkama okkar. Er eitthvað líkt með þeim? Þau voru búin að skoða æðarnar í laufblöðunum, við erum líka með æðar. Tré þarf næringu, við þurfum líka að borða. Tré eru með greinar, við erum með útlimi, hendur og fætur, tær og fingur. Þegar vel var að gáð sáu krakkarnir að flestar greinar voru með fingur en oftast bara þrjá á enda hverrar greinar. Tilraun Af nógu var að taka. Nú vildum við athuga hvort hægt væri að sjá æðarnar í laufunum með því að þrísta þeim í eitthvað mjúkt. Við bjuggum til kaffileir. Kaffileir hvað er nú það? Það urðum við að vita. Við fórum í eldhúsið og fengum nokkrar kaffibaunir sem gáfu frá sér kaffiilm um alla stofu, (því miður voru ekki til baunir beint af akrinum). Við ræddum um hvaðan þær koma, hvernig þær kæmust til landsins og hvað væri gert áður en hægr væri að laga kaffi. Þá var kaffikorgurinn eftir og það var hann sem við notuðum í leirinn. Sem sagt; baunir, kaffi, korgur, leir. Að lokum Einn kennarinn var búin að ákveða að bjóða elstu börnunum að stimpla á hvíta boli með laufblöðum. Á meðan við biðum eftir að geta byrjað á því vöknuðu hjá okkur bæði börnunum og kennurum margar góðar hugmyndir um það hvað mætti gera við þá. Þegar bolirnir komu, sem foreldrafélagið gaf, drógum við fram fataliti. Krakkarnir fundu falleg laufblöð, máluðu þau og þrýstu laufunum á bolina, útkoman varð glæsilegar flíkur sem þau geta gengið í.
© Copyright 2025 Paperzz